Quantcast
Channel: Eiríkur Jónsson » Langar fréttir
Viewing all articles
Browse latest Browse all 2053

LEYNDARMÁL KOMA Í LJÓS

$
0
0

Pakkinn opnaður. Aðalheiður Einarsdóttir, Aðalbjörg Sigmarsdóttir héraðsskjalavörður og Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri.

Laugardaginn 16. júlí sl. voru 100 ár liðin frá fæðingu Kristjáns frá Djúpalæk og þá mátti loks opna pakka sem hefur að geyma sendibréf skáldanna Kristjáns frá Djúpalæk og Guðmundar Böðvarssonar til hvors annars en Kristján og Guðmundur voru pennavinir ævilangt.

Aðalheiður Einarsdóttir, systir Kristjáns frá Djúpalæk, býr í hárri elli á Akureyri og hún sá um að opna pakkann með dyggri aðstoð Eiríks Björns Björgvinssonar bæjarstjóra í Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Bréfin voru skrifuð á árunum 1943-1974 en Kristján færði Héraðsskjalasafninu á Akureyri þau til varðveislu árið 1979 og mælti svo fyrir að þau skyldu liggja innsigluð þar til á afmælisdegi hans 16. júlí 2016 þegar hann hefði orðið 100 ára.

Kristján skrifaði í bréfi til safnsins: “Þau voru aldrei skrifuð með geymslu fyrir augum né öðrum ætluð. Þau kunna því að vera full af sleggjudómum um menn og málefni samtímans og má í fæstum tilfellum taka það mjög alvarlega. … Þegar leið á bréfasamband okkar fórum við að ræða um að bréfin skyldu geymd í allt að hálfa öld ef einhverjir skyldu þá hafa gaman af að sjá hvernig menn hugsuðu á þessum árum. Fjarlægð í tíma ætti þá og að vera orðin svo mikil að sársaukalaust sé öðrum mönnum.”

Næsta haust verður efnt til sérstakrar dagskrár til heiðurs skáldinu Kristjáni frá Djúpalæk á 100 ára afmælisári þess í samvinnu nokkurra menningarstofnana á Akureyri.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 2053