Frá fréttaritara á Austurvelli:
—
Íslenska þjóðfylkingin efndi til þögulla mótmæla gegn nýsamþykktum útlendingalögum við Alþingishúsið í dag.
Fjölmenningarsinnar brugðust við og söfnuðust saman á sama stað til þess að mótmæla mótmælunum. Heldur var þjóðfylkingin þunnskipuð í samanburði við þau sem fagna fjölbreytileikanum og það fólk lét heyra mun betur í sér. Þannig óð poppstjarnan Logi Pedro, dökkur á hörund, inn í þvögu hinna þjóðernissinnuðu og hrópaði ítrekað að þeim, á lýtalausri íslensku, að þeir ættu að skammast sín fyrir að nota íslenska fánann í mótmælum sínum.
Á tímabili leit út fyrir að til handalögmála kæmi þegar einn úr fylkingunni, með forláta óeirðahjálm á höfði, tók að svara Loga. Allt fór þó betur en á horfðist og engum varð meint af. Í það minnsta ekki líkamlega.