Hreinn Loftsson lögmaður og útgefandi flestra tímarit aá íslandi er ánægður með áskorun forráðamanna Útvarps Sögu, ÍNN, Hringbrautar, Símans og 365 miðla í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í morgun, varðandi samkeppnisstöðu fyrirtækja á íslenskum fjölmiðlamarkaði, en bætir svo við:
Ég er þeim þó ósammála um eitt: Komi til þess að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði á ekki að hækka útvarpsgjaldið sem nemur tekjumissi ríkisfyrirtækisins og tryggja þannig óbreytta starfsemi RÚV. Miklu fremur þyrfti að laga starfsemi ríkisfjölmiðilsins að minni tekjum. Slíkt kallar á endurskipulagningu og endurskilgreiningu á hlutverki RÚV.
Með því að taka RÚV af auglýsingamarkaði og afnema virðisaukaskatt af starfsemi fjölmiðla yrði stórt skref stigið til að jafna samkeppnisstöðu sjálfstærða fjölmiðlafyrirtækja gagnvart ríkisrekstrinum og erlendri samkeppni á borð við Netflix, Google og Facebook. En fleira verður að koma til. Bann við áfengisauglýsingum er líka tímaskekkja. Á sama tíma og áfengisauglýsingar flæða um netið á Facebook og víðar er íslenskum fjölmiðlum meinað að nýta sér þessa tekjuleið. Heildsalar og áfengisframleiðendur mega borga Facebook fyrir að kynna vörur sínar gagnvart íslenskum neytendum en ekki íslenskum fjölmiðlum.
Fremur en að taka upp styrkjakerfi að sósíalískri fyrirmynd, líkt og gert hefur verið með stjórnmálaflokkana, væri nær að fara framangreinda leið og gera fjölmiðlafyrirtækjum þannig kleift að treysta undirstöður sínar, eflast og dafna.