Stjórnendur Íslandsbanka brosa út í annað yfir látunum vegna 11% verðhækkunar á smjöri. Enginn virðist hafa tekið eftir því að nýlega hækkaði bankinn hluta af gjaldskrá sinni um allt að 108%.
Þessi hækkun heitir “breyting” á skilmálum ferðatrygginga þeirra sem eru með kort frá Íslandsbanka. Eigin áhætta hækkar víðast hvar um 108% – fer úr 12 þús. kr. í 25 þús. kr. Annars staðar er hækkunin minni, eða “aðeins” um 25%.
Sérstaklega er þó athyglisvert við þessa hækkun að eftir hana eru “fínu” gull, demants, platínum og fílabeinskortin með sömu eigin áhættu í tryggingum og hjá venjulega fólkinu, þessu með pappa- og álkortin.
Kannski ber að líta á þessar hækkanir Íslandsbanka sem hreinræktaðan sósíalisma – leið bankans til að koma á algjöru jafnræði meðal ríkra og fátækra. Það er auðvitað best gert með því að láta alla borga meira – en þó jafn mikið.