Mikið rask hefur verið á lóðinni á Laugavegi 6 þar sem verktakar hafa verið að sprengja sig ofan í klöpp í allt sumar með tilheyrandi látum til aða búa til kjallara undir Timberlandhúsið svokallaða sem flutt var til Hafnarfjarðar á meðan en Ólafur F. Magnússon lét gera það upp fyrir hundruð milljóna í borgarstjóratíð sinni.
Drunur og skjálftar frá sprengingunum hafa truflað kaupmenn í nágrenninu sem sumir hverjir hafa átt erfitt með að vinna vegna þessa.
“Það titrar allt og skelfur hjá mér,” segir Ófeigur Björnsson gullsmiður á Skólavörðustíg sem er fyrir löngu búinn að fá nóg og Sigurveig Káradóttir í Matarkistunni á næsta horni bætir við: “Terturnar hreinlega falla hjá mér.”
Í gær linnti sprengingum og risakrani var kominn á Laugaveginn með byggingarefni í kjallarann og svo verður Timberlandhúsið sótt til Hafnarfjarðar, sett á sinn stað ofan á kjallarann og allt fellur í ljúfa löð.