Kvikmyndagagnrýni Þórarins Þórarinssonar
—
Þegar endurgerð The Magnificent Seven er annars vegar mætti skrifa langt mál en á meðan enginn borgar mér fyrir bíódóma ætla ég að hafa þetta stutt. Get samt ekki orða bundist enda um heitt tilfinningamál hjá mér að ræða.
Vissulega eru til betri vestrar en The Magnificent Seven frá 1960 en hún er nú samt ein af mínum uppáhalds kabbojmyndum enda sjálfsagt sú best mannaða sem sögur fara af. Þar var sá fíni leikstjóri John Sturges (The Eagle Has Landed, The Great Escape, Gunfight at the O.K. Corral) í fantastuði með frábæran leikhóp töffara. Og hann notaði þrjá jaxla af þessum sjö (Steve McQueen, Charles Bronson, James Coburn) aftur þegar hann gerði þá frábæru WWII-mynd The Great Escape þremur árum síðar.
Lengi hefur staðið til að endurgera þennan sígilda vestra og á tímabili, fyrir 20 árum eða svo, var meira að segja rætt um að Mickey Rourke ætti að leika í endurgerð og þá væntanlega fylla skarð Steve McQueen enda svar tíunda áratugarins við The King of Cool. Ekkert varð af því en nú, 56 árum síðar, hefur Antoine Fuqua uppfært The Magnificent Seven. Og bara með nokkrum glæsibrag.
Eftir að hafa séð treilerana var ég orðinn verulega spenntur en erlendir dómar og ummæli kunningja minna höfðu slegið nokkuð á væntingarnar þegar ég fór í bíó. Þess vegna kom þessi endurgerð mér líka skemmtilega á óvart.
Fuqua er engan veginn í hópi klárustu leikstjóranna í bransanum en hann hefur stíl. Sem nýtur sín ákaflega vel í hressilegum bardagasenum og af þeim er nóg í The Magnificent Seven. Hann heldur anda gömlu myndarinnar líka merkilega vel og kannski er það eitthvað að stuða nútíma áhorfendur. Myndin fer hægt af stað, enda tekur tíma að smala saman sjö brjálæðingum til þess að fara í vonlausan leiðangur til þess að vernda bændaþorp gegn ágangi glæpagengis sem telur hundruð fúlmenna.
En ég bið ekki um meira en helling af stílfærðum manndrápum, töffaraskap, male bonding og smá hefndardrama. Þannig að ég fékk mitt kikk út úr nýju myndinni og vel það. Í miðjum stóra bardaganum var ég kominn með myndina upp í 4 stjörnur en hún missti eina í lokin þegar forsendur aðalgæjans fyrir því að hjálpa bændunum þurfti endilega að vera orðin persónuleg og vemmileg. Gömlu hetjurnar 7 gerðu þetta mest just for the hell of it (og von um smá gull) og vegna þess að þeim leiddist kúgun og ranglæti. Hvað um það. Þetta er fyrirmyndar vestri og frábær skemmtun.
Og þá að samanburðinum. Fuqua teflir fram Denzel, vini sínum, Washington en þeim lætur einkar vel að vinna saman (Training Day, The Equalizer), Chris Pratt, sem er að verða einhver skemmtilegasti og mest sjarmerandi gæinn í bransanum (Jurassic World, The Guardians of the Galaxy), Ethan Hawke, sem ég ákvað að hata 1989 og hef haldið mig við það síðan. Hann er hins vegar því miður óþolandi góður hérna,
þeim frábæra leikara Vincent D’Onofrio, Byung-hun Lee (who?), Manuel Garcia-Rulfo (who?) og Martin Sensmeier (who?). Semsagt fjórir verseraðir menn og þrjú nóboddí.
Sturges hafði yfir að ráða Yul Brynner, sem er svo mikið legend að ónýt dekk eru enn nefnd eftir honum á Íslandi, Steve McQueen, einum mesta töffara kvikmyndasögunnar sem skemmti sér meðal annars við að slást við Bruce Lee, James Coburn, Charles Bronson (Death Wish, anyone?), Robert Vaughn, þeim „slick“ The Man from U.N.C.L.E. sem er fáránlega flottur, útbrunninn byssubrandur í MF7, þýska sjarmanum Horst Buchholz sem var rísandi stjarna í Hollywood og Brad Dexter sem er þess heiðurs aðnjótandi að fá að vera sá minnst þekkti í þessum klikkað töff hópi.
Denzel leiðir hópinn í dag sem Brynner fór fyrir 1960. Ekki þarf að deila um að Washington er miklum mun betri leikari en Brynner var en í töffinu hefur sá sköllótti vinninginn. Þar fyrir utan er Washington lítið að reyna á sig sem leikari hérna. Er bara Denzel með kúrekahatt.
McQueen var að ryðja sér til rúms í Hollywood í MF7 sem var eiginlega fyrsta alvöru myndin hans. Og hann var svo náttúrulegur töffari að hann var með endalausa töffaratakta sem voru ekki í handritinu (takið eftir múvinu með haglarann á póstvagninum í byrjun myndar) og var að gera aðalstjörnuna Brynner sturlaðan með því að skyggja endalaust á hann.
Chris Pratt er ígildi McQueen núna, allt öðruvísi karakter en samt sementið í myndinni. Coburn var hnífamaðurinn og hann er nú orðinn að eitursvölum Kínverja (Byung-hun Lee) og Vauhgn og Dexter er blandað saman í persónu Hawke sem er dásamlegur; gambler og vígamaður sem getur ekki meir.
The Magnificent Seven anno 2016 er að sjálfsögðu flottari, klippt hraðar og meiri dýpt í leiknum og sögunni en 1960 árgangurinn vinnur í kúlinu enda þarf ekki miklar reiknikúnstir til þess að framreikna leikarahópinn og sjá að fyrri hópurinn rústar þeim nýju. Sennilega hefði ekkert kvikmyndaver efni á því nú til dags að smala saman sjö stjörnum af því kaliberi sem Sturges hafði yfir að ráða.
Fyrir utan frábæra bardaga og hetjudáðir þá eru það Pratt og D’Onofrio sem lyfta 2016 árgerðinni langt yfir meðallagið. Svalir og fokk fyndnir. Já, og svo auðvitað Ethan Hawke, verð að viðurkenna það, og Kínverjinn, og indíáninn (Martin Sensmeier) og Washington sem er alltaf traustur. Þetta er bara geggjað gengi þótt þeir toppi ekki hina enda gæti Steve McQueen einn síns liðs malað þá í töffaraskap. Án þess að segja orð. Án þess einu sinni að leika.
Þetta er semsagt góð saga sem þolir vel endurgerð og uppfærslu. Enda ekki alveg ný af nálinni. Allt byrjaði þetta með Kurosawa og Seven Samurai 1954 og tilbrigði við þetta stef hafa verið leikinn í Pixar-teiknimyndinni A Bug’s Life og vitaskuld The Three Amigos þar sem hetjurnar eru orðnar aðeins þrjár en sagan sú sama.
OG SVO SPOILERINN: Það drepast jafn margir úr sjö hetju hópnum 2016 og 1960 en ekki alveg sömu týpurnar. Spennó!
Eins gott að enginn er að borga mér fyrir þetta ef þetta er stutta ókeypis útgáfan.