Steini pípari á hugleiðingu dagsins:
—
Ég hugsa stundum að ég sé fluga á vegg og sviðið er ráðuneyti, umræðan fjallar um kosningaloforðið að lækka byggingarkostnað um 20 til 30%. Leikritið heitir „Já ráðherra.“
Það hefur sem sagt aðeins komið út úr þessu smá smjörklípa og Humphrey Íslendinga nær að drepa málinu á dreif. En hvað ef enginn Humphrey stýrði för?
Væri ekki hægt að skylda sveitarfélög til að hafa ákveðið magn af gjaldfrjálsum lóðum og heimila mönnum að vinna í eigin húsnæði sjálfir eins og var gert áður – nú með hæfilegu eftirliti og skráningu.
Silkihúfan byggingastjóri mætti þá fjúka a.m.k. þegar menn byggðu fyrir sjálfa sig og kröfur um aðgengi væri aðeins bundið við ákveðna prósentu íbúða sem verktakar byggðu til sölu.
Þétting byggðar er góð og gildi en það þarf líka að huga að þörfum þeirra sem ekki hafa efni á að búa þar sem lóðarverð er hæst. Það er ríkisstjórn sem hefur boltann. Það er hún sem verður að varpa honum til þeirra sem geta skorað mark.