Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra fylgdi eiginkonu sinni, Elsu Ingjaldsdóttur, á Landspítalann í morgun þar sem hún gengst undir brjósklosaðgerð – langþráða að eigin sögn.
“Það þýðir að ég verð ekki með ykkur á síðustu metrunum,” segir hún í pósti til vina sinna og samherja. “Það sem mér finnst þó verra er að ég missi af morgundeginum með ykkur, skemmtilegum rúnti milli kosningaskrifstofa, félagsskapnum, drekkhlöðnum kaffiborðum og kosningavöku.”
Elsa bætir því við að hún sé búin að brýna eiginmanninn fyrir endasprettinn í kosningabaráttunni og hvetur alla til að mæta á kjörstað og merkja við það stjórnmálaafl sem best sé treystandi fyrir framtíð Íslands.
“Þessi elska fylgdi mér í morgunsárið,” segir Elsa sem tók mynd af sér og eiginmanninum fyrir utan Landspítalann í morgun.