Málverk nefnist önnur einkasýning Guðjóns Ketilssonar í Hverfisgallerí sem opnar á föstudaginn með pomp Og pragt.
Titillinn tengist þeim lestri er báðar myndraðir sýningarinnar opna fyrir; Í annarri myndröðinni koma fyrir málningarpallettur Guðjóns, diskar og skálar sem hann hefur blandað liti á og síðan geymt á vinnustofu sinni, frá miðjum 10. áratugnum til ársloka 2015 og þá pússað niður með sandpappír. Við pússunina sjást málningarlögin og lag fyrir lag má lesa litanotkun listamannsins við gerð verka á lengstum hluta ferils síns, líkt og lesa má jarðsögu úr jarðlögum lands.
Í hinni myndröð sýningarinnar koma fyrir verk þar sem listamaðurinn vinnur með nítján af eigin málverkum, sem unnin voru á 9. áratugnum, auk texta sem lýsir því sem fyrir augu ber í hverju verki. Í raun þyrfti að nota hér fortíð sagnarinnar og segja; lýsir því sem fyrir augu bar, því viðkomandi málverk hafa nú verið skorin niður í þunnar ræmur og hefur listamaðurinn límt þær þétt saman, svo ekki er lengur hægt að sjá myndina á upprunalega málverkinu. Eftir stendur málverk án myndar og texti er stendur fyrir þá mynd sem eitt sinn var.
Um verk sín á sýningunni segir Guðjón: „Sjálfum finnst mér skapast ákveðið andríki með góðri vinnuaðstöðu og ég er alltaf að reyna að búa mér til pláss á lítilli vinnustofu, endurskipuleggja. Endurskipulagningin verður mér æ meiri hvati fyrir gerð nýrra verka og í henni felst ákveðin endurskilgreining. Í einum af skápunum voru þessar málverkarúllur, verk sem ég gerði á árunum 1983-1989 og voru í raun alltaf fyrir augunum á mér. Allan þennan tíma fannst mér ég ekki þurfa að breiða úr rúllunum því utaná hverja þeirra hafði ég skrifað lýsingu á hverri mynd og veit undireins af þeirri lýsingu hvaða verk þetta er afþví ég þekki það. Ég vissi að ég ætti aldrei eftir að sýna þessi málverk aftur. Ég tók þau fram, skar þau í ræmur og límdi ræmurnar saman. Mig langaði að sjá hvernig þverskurðurinn væri, því ég hef verið að vinna nokkuð með bókina sem objekt. Þverskurðurinn lítur út eins og blaðsíður í bók. Á þeim tíma sem ég var að gera þetta varð ég vitni að sjónlýsingu Þórunnar Hjartardóttur á málverkum á Kjarvalsstöðum fyrir blinda og sjóndapra. Og það bara small eitthvað saman, að málverkin, sem ég hafði skorið niður í ræmur, fengju svona textalýsingu og að tungumálið, textinn, yrði að vera stór hluti af sjálfu verkinu.“
Guðjón Ketilsson (f. 1956) býr og starfar í Reykjavík. Hann lauk myndlistarnámi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1978 og framhaldsnámi frá Nova Scotia College of Art & Design í Kanada árið 1980. Hann hefur haldið yfir þrjátíu einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga í Evrópu, Bandaríkjunum, Kína og Ástralíu. Verk Guðjóns eru að finna í öllum listasöfnum á Íslandi, svo og í söfnum erlendis og einkasöfnum. Hann hefur unnið að myndlist á fjölda alþjóðlegra vinnustofa og hefur verið valinn til þátttöku í alþjóðlegum samkeppnum. Guðjón hlaut Menningarverðlaun DV árið 2000 og Verðlaun Listasafns Einars Jónssonar 2001.