Í dag verður gengið frá eigendaskiptum á tónleikastaðnum Café Rosenberg sem Þórður Pálmason hefur rekið við Klapparstíg í 15 ár.
“Kári Sturluson tónleikahadari er að taka við þessu,” segir Þórður en áður hafði birst hér frétt um að Jónsi í Sigur Rós væri að kaupa staðinn.
“Ég veit ekkert um hvort Jónsi tengist þessu en það getur verið að þeir þekkist úr bransanum.”
Þórður á Rosenberg er búinn að vera í veitingamennsku í 43 ár, byrjaði á Hótel KEA á Akureyri aðeins 17 ára meðfram því sem hann lærði skipasmíði og hefur víða komið við.
“Nú tek ég mér bara mánaðarsumarfrí í fyrsta sinn á ævinni og sé svo til. Maður er vanur að vinna þannig að ég veit ekki alveg hvernig þetta verður hjá mér,” segir Þórður ánægður með að Kári ætli að halda tónelikastarfseminni áfram á Rosenberg eins og verið hefur:
“Kári tekur hér við sællegu búi. Svo mikið veit ég,” segir Þórður á Café Rosenberg og kveður.