Úr viðskiptadeildinni:
—
Verslun 66°N á Strikinu í Kaupmannahöfn lætur ekki mikið yfir sér og að sumarlagi er þar engin örtröð. En verslunin er merki þess að Íslendingar eru tilbúnir til að fara aftur af stað með rekstur í þessari fyrrum höfuðborg sinni.
Smám saman fennir yfir sneypuför íslenskra útrásarvíkinga um Danaveldi í aðdraganda bankahurnsins. Þeir slógu lán sem óðir væru (og sumir eignuðust bara banka til að gera sér lántökuna auðveldari) og keyptu og keyptu. Magazin du Nord, Sterling flugfélagið, hótel D’Angleterre við Kóngsins Nýjatorg svo nokkuð sé nefnt. Hófu meira að segja útgáfu Fréttablaðsins (Nyhedsavisen) í Danmörku og ætluðu að leggja undir sig danskan blaðamarkað.
Nú, rúmlega 10 árum síðar, er öllu meiri glóra í því sem Íslendingar hafa í hyggju í útlöndum. Áform 66°N um útrás eru hófstillt og skynsöm og það sama má t.d. segja um Hamborgarabúlluna (Tommi’s Burger Joint), sem er búin að opna í nokkrum Evrópulöndum.
Sjálfsagt þurfa a.m.k. 50 ár að líða þangað til sagan verður nógu gleymd til að athafnasamir útrásarvíkingar missi tökin á sjálfum sér og fljúgi aftur út í heim á vængjum stórmennskubrjálæðisins.