Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins og Birgitta Jónsdóttir Pírati eru ekki sammála um margt, ef nokkuð, en það á ekki við um stríðsmyndina Dunkirk sem er nú í bíó. Myndin fjallar um breska hermenn sem eru fastir á strönd í Frakklandi og bíða eftir björgun eða Þjóðverjum. Birgitta segir á Facebook að hún hafi farið sem semingi á myndina sem syni sínum og sá hún alls ekki eftir að hafa farið:
„Myndin er mögnuð, henni fá engin orð lýst. Ég fann meira að segja lyktina af úfnum sjónum fylla vit mín áður en hann brann. Ég mæli með þessari mynd, hún er ólýsanlegur vitnisburður um hörmungar stríðsreksturs og þörf áminning um það besta og versta við gáttir ómennskunnar,“ segir Birgitta. Mælir hún með því að sjá hana í sal eitt í Egilshöll.
Ekki er víst hvort Björn hafi tekið ráð Birgittu og skellt sér í bíó í Grafarvoginum en hann fór þó samt. Segir hann í vefdagbók sinni að þessum atburðum í stríðinu sé komið snilldarlega til skila. Myndin myndaði þó öðruvísi hugrenningartengsl hjá Birni en hjá Birgittu, segir hann að myndin hafi rifjað upp fyrir sér ráðstefnu sem hann sat um Írakstríðið þar sem kom fram að brýnt væri að hafa hernaðaraðgerðir mjög hraðar til að fjölmiðlar gætu ekki hrætt þjóðir til að senda ekki hermenn á vígvöllinn, Björn segir myndina staðfesta þetta:
„Það sem hún sýnir staðfestir orð eins ræðumanns á fyrrgreindri ráðstefnu að hefði nútíma fjölmiðlun verið við lýði árið 1940 og atburðum þessum lýst í beinni útsendingu hefði stríðið líklega endað þarna með sigri nasista.“
Svona getur skilningur fólks á list verið ólíkur, en bæði Björn og Birgitta mæla með myndinni.