Bjarni Benediktson forsætisráðherra hefur verið á hamfarasvæðunum á Suðausturlandi í morgun og aðstoðarkona hans, Svanhildur Hólm, greinir frá og tekur myndir:
“Við flugum til Hafnar í Hornafirði í morgun. Það er ekki gott að lýsa aðstæðum hér fyrir austan þar sem úrhelli og vatnavextir setja allt úr skorðum. Og enn rignir. Á búinu Flatey sem við heimsóttum áðan, sagði Birgir bústjóri okkur að þangað hefði enginn mjólkurbíll komist síðustu daga. Hann bar sig vel og sagðist ekki enn hafa þurft að hella niður mjólk. Það er óhætt að segja að áhöfnin á þyrlunni hefur haft í mörgu að snúast, við að aðstoða menn og dýr síðustu daga. Í gær fór þyrlan til dæmis með lyf til Birgis til að bjarga veikri kú, en öðruvísi var ekki hægt að komast að búinu.”