Skattgreiðandi sendir skeyti (og mynd):
—
Litlu varðskipin Týr og Ægir liggja rígbundin við bryggju, annað á Sauðárkróki og hitt í Sundahöfn. Hvorugt þeirra er í notkun.
Nýja varðskipið Þór sést endrum og sinnum dóla fyrir rafmótor á æfingum úti á Sundunum. Örfáum sinnum á ári er aðalvélin sett í gang og haldið út á sjó. Minnst árlega er haldið til Færeyja til að fylla olíutankana til að spara sér virðisaukaskattinn.
Nýleg flugvél Gæslunnar fer varla spönn frá rassi því það er svo dýrt að gera hana út og lítil þörf fyrir hana. Helstu notin af flugvélinni hafa verið mörg þúsund kílómetra frá landhelginni, við landamæragæslu á Miðjarðarhafinu sem önnur lönd borga.
Satt að segja virðast ekki bara litlir fjármunir til að reka Landhelgisgæzluna, eins og þetta ber merki um, heldur virðist einfaldlega lítil þörf fyrir skipin og flugvélina. Skip og bátar á sjó eru með búnað sem gerir Gæzlunni kleift að fylgjast með þeim í tölvu í rauntíma. Ef eitthvað bregður út af, þá er fljótlegast að láta nærstödd skip vita. Varðskip gæti verið sólarhring eða meira í burtu.
Þyrlur Gæzlunnar virðast eiginlega það eina sem skiptir máli í starfsemi þessarar stofnunar fyrir okkur íbúa og skattgreiðendur. Þær hafa margsinnis sannað mikilvægi sitt.
Sjálfsagt geta varðskipið Þór og flugvél Gæzlunnar einhvern tímann komið að góðu gagni. Þegar þar að kemur verða allir fegnir að þessi tæki séu til staðar. En það er kostnaðarsamt að halda þessum dýra búnaði gangandi með tilheyrandi mannskap. Ef notagildið er svona takmarkað, þá má spyrja um skynsemi þess.
Réttast væri að selja öll varðskipin og flugvélina og treysta á dönsk, skosk og norsk varðskip til að koma til aðstoðar ef þörf krefur. Þessi skip eru hvort sem er stöðugt á sveimi á hafsvæðinu og mætti jafnvel semja um frekari nærveru þeirra.