Barítónsöngvarinn Ólafur Kjartan söng sig inn í hjörtu tónleikagesta á tónleikum Sinfóníunnar undir stjórn Ashkenazys í fyrra. Nú snýr hann aftur og syngur ægifögur og sárljúf ljóð Mahlers með hljómsveitinni undir stjórn Daníels Bjarnasonar.
Daníel, sem er staðarlistamaður SÍ, hefur vakið verðskuldaða athygli víða um heim á undanförnum árum fyrir tónsmíðar sínar og hljómsveitarstjórn. Nýtt hljómsveitarverk hans, Collider, dregur nafn sitt af stóra sterkeindahraðlinum í rannsóknamiðstöðinni CERN og var frumflutt af Sinfóníuhljómsveitinni í Cincinnati í mars síðastliðnum. Þar vakti það mikla hrifningu og einn gagnrýnandi kallaði það „heillandi ferðalag í tíma og rúmi“.
Vinafélag Sinfóníunnar stendur fyrir tónleikakynningu á undan tónleikunum kl. 18:20.