Ævisöguritari Davíðs Oddssonar forsetaframbjóðanda gekk í fang hans á Útvarpi Sögu síðdegis í dag eftir að hafa verið þar í klukkustundarlöngu útvarpsviðtali um ævisöguna, Davíð – líf og saga – Beysi kemur í bæinn. Útgefin skömmu áður en Davíð lagði Sjálfstæðisflokkinn að fótum sér með því að fella Þorstein Pálsson úr formannssæti – en báðir voru þeir frá Selfossi.
Davíð var mættur óvænt á Sögu en til stóð að hann kæmi þangað í viðtal á morgun en fékk því flýtt um sólarhring þar sem hann er á leið út á land og vildi bara láta taka þetta upp.
Ævisöguritarinn og Davíð hafa varla talast við, með örfáum undantekningum, frá því bókin kom út en þarna stóðu þeir allt í einu andspænis hvor öðrum í hljóðveri Sögu og þá gerðist þetta:
—
Davíð: Blessaður og sæll, gaman að sjá þig.
Ævisöguritari: Langt síðan við höfum sést.
(Handaband og bros).
Davíð: Ég hef stundum hugsað til þess hvað ég var leiðinlegur við þig þegar þú varst að skrifa bókina um mig en ég leit síðast í hana í gær og finnst hún ágæt.
Ævisöguritari: Gott að þú átt þá eintak. Hélt hún væri ófáanleg en þau hérna hjá Útvarpi Sögu vilja gefa hana út sem kilju, helst á morgun.
Davíð: Góð hugmynd, hún myndi rokseljast núna.
(Aftur handaband og bros).
Ævisöguritari: Gangi þér vel.
Davíð: Sömuleiðis, Eiríkur.