Heyrnaskert rússnesk kona dvelur nú í Kvennaathvarfinu eftir að yfirvöld hlutuðust til um mál hennar en hún hafði verið neydd til að selja happdrættismiða fyrir aðila sem sá um fjáröflun fyrir Félag heyrnaskertra.
Viðkomandi fjáröflunaraðili, sem tengist ekki Félagi heyrnaskertra að öðru leyti, flutti konunna hingað til lands oftar en einu sinni, fór með hana um land allt og sendi í hús til að selja happdrættismiðana. Ekki fékk hún laun fyrir né umbun og er málið rannsakað sem mansal af lögreglu en bæði velferðarráðuneytið og borgaryfirvöld vinna í því.
Rétt áður en lögreglan lét til skarar skríða var umræddur fjáröflunarmaður búinn að pakka niður dóti hennar og ætlaði að senda úr landi en það tókst ekki. Lögreglan var fyrri til og kom konunni fyrir í Kvennaathvarfinu sem fyrr segir. Var hún þá illa á sig komin, svöng, þreytt og hrædd.