Hugmyndir símafyrirtækisins Nova um að leggja Skólavörðustíginn undir sig með vatnsrennibraut um miðjan júlí hafa verið slegnar af eftir að verslunareigendur við götuna funduðu og fólu Jóa í Ostabúðinni að tala sínu máli við Nova
Hugmyndin var að setja upp vatnsrennibraut efst á Skólavörðustíg, að amerískri fyrirmynd, með búningsherbergjum fyrir viðskiptavini í gámum, og síðan sundlaugarpott með fleiri gámum og skiptiherbergjum á Bankastrætishorninu. Hvernig átti að færa föt viðskiptavina á milli er ekki vitað.
Þetta hefði leitt til þess að vegfarendur við Skólavörðustíg hefðu ekki komist yfir götuna á meðan fólk hefði verið að renna sér á fullri ferð niður götuna í boði Nova.
Þegar Jói í Ostabúðinni mótmælti við Nova voru svörin þau að lýðræðið ætti að ráða og þeir væru sáttir og myndu hætta við. En líklega hafa Nova-menn verið fegnir að þurfa ekki að standa í þessum ósköpum því eins og einn sagði: “Hugmyndin var aldrei góð.”