Frá flugfréttaritaranum:
—
Orðalag um flugvélakaup íslensku flugfélaganna er stundum nokkuð skrautlegt. Flugfélag Íslands kallar 15 ára gömlu Bombardier Q400 flugvélarnar “nýjar.” WOW talar um að fjárfesta í nýjum flugvélum. Sú dýrasta kostar yfir 30 milljarða króna. Hvernig getur Skúli Mogensen keypt 30 milljarða króna þotu – eða reyndar þrjár?
Þumalputtareglan virðist vera þessi: ef flugfélag er skráður eigandi flugvélar, þá er vélin í eldri kantinum. Ef flugvélin er ný eða nýleg, þá er flugfélagið með hana á kaupleigu.
Icelandair á nánast allar sínar þotur. Flugfélag Íslands á allar sínar flugvélar. WOW á enga þotu. Þær eru allar á kaupleigu enda ekki á færi lítils flugfélags að snara út tugmilljörðum króna. Þotur WOW eru ýmist í eigu Jessica Leasing Limited, Skyway Bermunda Limited, Rosewind Bermuda Limited eða Sky High IV Leasing.
Kaupleiga er reyndar eitt algengasta form flugvélareksturs í heiminum. Tvö stærstu fjárfestingafélögin í þessum bransa eiga hátt í tvö þúsund þotur hvort sem þau leigja til flugfélaga um allan heim. Algengt er að leigutímabil sé átta ár og má gera ráð fyrir að WOW sé með sínar vélar á slíkum samningi.
En þó floti Icelandair sé tekinn að eldast og minna fé bundið í honum, þá gerir eignarhald félagsins á flugvélunum það að verkum að ekkert er til sparað í viðhaldi eða endurnýjun. Nýjar innréttingar vélanna undirstrika það ekki síst.