Júlíus Sólnes, fyrsti íslenski umhverfisráðherrann, segir Íslendinga gefa skít í náttúruvernd og ráðamenn séu með hrein látalæti í þeim efnum:
“Þegar ég tók þátt í að koma á ráðuneyti umhverfismála á Íslandi fyrir rúmlega aldarfjórðungi, varð ég strax var við tvískinnung Íslendinga, aðallega valdhafa, í umhverfis- og náttúruverndarmálum,” segir Júlíus Sólnes og heldur áfram:
“Við þóttumst þá, og þykjumst væntanlega enn, búa í hreinasta og umhverfisvænasta landi heims. Samt vorum við með allt niður um okkur í sorphirðu- og holræsamálum, þannig að skömm var að. Ástandið hefur að vísu batnað eitthvað, en er þó hvergi nærri í lagi. Og þegar von er á gróða ogatvinnumöguleikum vegna einhverra framkvæmda, fá flestir dollaraglampa í augun og eru sammála um að böðlast á náttúrunni, ef það er forsenda slíkra framkvæmda.
Nú tekur tappann úr.
Samtímis því að við berjum okkur á brjóst og þykjumst fremst meðal þjóða í að virða nýjan loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna, París 2015, ákveða yfirvöld að hunza ákvörðun Úrskurðarnefndar um að stöðva lagningu háspennulína til Bakka vegna kæru Landverndar og láta skoða framkvæmdina betur. Tregða við að fiskeldi og jafnvel stærri verksmiðjur sæti mati á umhverfisáhrifum er einnig velþekkt. Svo virðist að náttúrvernd og umhverfisvitund á Íslandi sé í formi Potemkintjalda til þess að villa um fyrir umheiminum. Á bak við tjöldin blasir einbeittur vilji til að gefa skít í alla náttúruvernd, ef peningar eru í boði.”