Frá tíðindamanni á Granda:
—
“Þetta er hreint hvalræði,” sagði Valdi bóksali sem var að ná í þungan kassa með kynningarbæklingum um hvalaskoðun sem hann dreifir á hótel og gistiheimili í miðbænum.
Valdi er einn afkastamesti dreifingaraðili veggspjalda og bæklinga í höfuðborginni og fer allra sinna ferða fótgangandi.
Á meðan var Eddy kokkur á Texasborgurum að steikja nýja borgarann sem Eiki feiti hefur endurhannað fyrir staðinn og er um hreina byltingu að ræða.
“Áður bjuggum við allt til hérna á staðnum, borgarana, sósurnar og allt en núna er þetta keypt út í bæ af kjötiðnaðarfyrirtæki,” segir Eddy sem er frá Litháen og hefur lengi steikt Texasborgara.
Sælkeri á staðnum sagði breytinguna á Texasborgaranum undraverða, kjötið ferskara, sósan bragðgóð, brauðið skemmtilega stökkt og upprúllaðar franskar gefa frönsku kartöflunum á veitingastaðnum Snaps við Óðinstorg ekkert eftir en þær þykja þær bestu í bænum.
“Nú getur Texasborgarinn keppt við Hamborgarabúlluna og borgarana á Forréttabarnum hér í næstu götu,” sagði sælkerinn alsæll.