Uppfært – hér er allt um myndina!
“Ég má ekkert segja. Búinn að skrifa undir trúnaðareið,” segir Magnús Karl Pétursson hótelstjóri á Hótel Djúpavík á Ströndum en þar er nú margmenni vegna kvikmyndatöku sem enginn má frétta af. Hótelið fullt, trukkar út um allar grundir og umferð á eina veginum líkt og í stórborg. Ekkert má mynda og ekkert má segja.
Ástandinu er líkt við innrás og öllu stjórnað af kvikmyndafyrirtækinu True Nort. Kvikmyndað er víða á Ströndum, hótelið sem tekur 32 gesti löngu sprungið og samkvæmt heimildum gista um hundrað manns í hjólhýsum í Reykjafirði. Eftir því sem næst verður komist er hér um erlenda stórmynd að ræða og nafn stórleikarans Jeremy Irons nefnt í því sambandi.
Undirbúningur hefur staðið lengi eins og sjá má á þessari tilkynningu frá í sumar:
—
Föstudaginn 12. ágúst milli 16 og 18 verður Andrea Brabin stödd í Hnyðju,Höfðagötu 3 til að skrá
og mynda væntanlega aukaleikara fyrir kvikmynd sem tekin verður upp
í Djúpavík á Ströndum um miðjan október í 2-3 daga.
Leitað er eftir leikurum á öllum aldri en þó mest fullorðnum.
Greitt er fyrir vinnuna og ætlast til að aukaleikarar séu á staðnum meðan á tökum stendur.
—
“Ætli það séu ekki um 50 statistar héðan af svæðinu að taka þátt í myndinni en ég má ekkert segja,” segir Salbjörg Engilbertsdóttir gjaldkeri leikfélagsins á Hólmavík.