Gray Line á Íslandi og kínverski rafbílaframleiðandin BYD undirrituðu í gær samkomulag um þróun á rafdrifnum rútum sem henta íslenskum aðstæðum. Gray Line horfir ekki síst til rafknúins aksturs á leiðinni milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar.
Gray Line á Íslandi hefur í töluverðan tíma kannað markað rafdrifinna hópferðabíla, en hvergi fundið farartæki sem hentað gæti fullkomlega íslenskum aðstæðum.
„Það er ágætis úrval af rafdrifnum strætisvögnum sem henta innan borgarmarka. Þeir gera sig hins vegar ekki í utanbæjarferðum eins og t.d. milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar. Þeir komast ekki nógu hratt auk þess sem byggingarlag þeirra er of viðkvæmt fyrir sviptivindum sem eru algengir hér á landi. Við höfum verið að leita að rafbílaframleiðanda sem gæti tekist á við þessi úrlausnarefni og ýmsar aðrar kröfur á borð við langdrægni og farangursrými,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður og viðskiptaþróunarstjóri Gray Line á Íslandi.