Listamaðurinn Molli hefur verið að mokselja myndir sem hann hefur sýnt á Sjávarbarnum á Granda að undanförnu. Molli gefur ekki upp sitt rétta nafn, starfar í hljóði og lætur litsterkar myndir tala sínu máli. Töluvert hefur hann selt til erlendra ferðamanna sem leið hafa átt hjá.
Nú síðast keyptu tveir starfsmenn hjá Prófílstál sitt hvora myndina eftir að hafa prúttað vel; Alexander Bridde, forstjóri fyrirtækisins, keypti mynd sem heitir Maðurinn við hafið, og starfsmaður hans, Jón Unnar Guðsteinsson vélvirki, keypti Lífið er saltfiskur.
Prófílstal er að innrétta nýja gleraugnaverslun Sjónlags sem opnar á næstunni út á Granda.
Mynlistasýningar eru snar þáttur í rekstri Sjávarbarsins og þar safa sýnt ekki ómerkari menn en Snorri á Húsafelli, Daði Guðbjörns, Tolli og Bjartmar Guðlaugsson. Sjálfur á kokkurinn á staðnum, Magnús Ingi Magnússon, ekki langt að sækja myndlistaráhugann því faðir hans er skúlptúristinn Teddi, landsþekktur fyrir tröllslegar myndir sínar úr járni og tré.