Árlegur „Kjötsúpudagur á Skólavörðustíg“ verður fyrsta vetrardag, laugardaginn 22. október. Þetta er 14. árið sem þessi götuhátíð fer fram en hún er haldin af rekstraraðilum við Skólavörðustíg í samvinnu við Samband Sauðfjárbænda með dyggri aðstoð grænmetisbænda.
Kjötsúpan er framleidd af nokkrum færustu kokkum þjóðarinnar frá þekktum veitingastöðum; Jói í Ostabúðinni býður upp á súpu fyrir framan Ostabúðina nr. 8. Úlfar og félagar á Þremur frökkum verða staðsettir við hegningarhúsið nr. 9. Gústi og hans fólk á Sjávargrillinu verða á hlaðinu fyrir utan staðinn nr. 14. Sigurgísli og Stefán á Snaps bistro Óðinstorgi verða fyrir framan Handprjónasambandið nr. 19. Og þá er komið að Kol veitingastað nr. 40 efst á Skólavörðustígnum.
Athygli er vakin á að súpan er sérlöguð á hverjum veitingastað og því engar tvær eins.
Meginþema Kjötsúpudagsins er að bjóða vetur konung velkominn. Og minna á að maður er manns gaman.