Fréttaskeyti frá stjórnmálaskýranda:
—
Lítil frétt í ViðskiptaMogganum í dag (3. nóv.) afhjúpar hvers vegna Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sýnir svona lítinn áhuga á því að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Hann er nefnilega brjálaður úr í Morgunblaðið og Morgunblaðið er jú málgagn Sjálfstæðisflokksins, svona oftast nær.
Fyrir kosningar reyndi Morgunblaðið til hins ítrasta að gera það tortryggilegt að Benedikt hafði selt hlutabréf í Nýherja, þar sem hann er stjórnaformaður, nokkru áður en hlutafé var aukið í Nýherja. Reyndar sá enginn neitt athugavert við þessi viðskipti nema Morgunblaðið þessa daga fyrir kosningarnar.
Þegar svo Mogginn hringir í Benedikt til að spyrja hvort hann ætli að hætta sem stjórnarformaður Nýherja, þá skellir hann á blaðamanninn. Það bullsýður á formanni Viðreisnar, jafnt gagnvart Mogganum og þeim Sjálfstæðismönnum sem stóðu að baki umfjöllun blaðsins. Hann kreppir hnefana og hugsar þeim þegjandi þörfina. Aðför Moggans gæti því átt eftir að verða Sjálfstæðisflokknum dýrkeypt.
Benedikt er ekki skemmt við tilhugsunina um að fara í ríkisstjórn með fólki úr Sjálfstæðisflokknum sem reyndi með þessum hætti að gera hann tortryggilegan. Þess vegna sýnir hann áberandi áhugaleysi á því að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og þess vegna sótti hann svo fast að fá umboð forseta til að leiða stjórnarmyndun. En Benedikt virðist hafa jafn lítinn áhuga á vinstri stjórn, þannig að vandséð er hverskonar ríkisstjórn hann gæti hugsað sér.