Nördabúðin Nexus í Nóatúni sérhæfir sig í myndasögum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á mynddiskum og alls kyns bókum, dóti og varningi sem tengist áhugamálum þeirra sem lifa og hrærast í skálduðum heimum fortíðar, framtíðar og himingeima.
Verslunin hefur verið í stöðugum vexti enda fjölgar nördum landsins hratt og örugglega. Nú er svo komið að Nexus ætlar að færa út kvíarnar og opna útibú í Kringlunni í lok nóvember.
Hárrétt tímasetning þar sem desembersala Nexus hefur í gegnum árin verið býsna drjúg.