Sigurður Pálsson fékk verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á Degi íslenkrar tungu og þó fyrr hefði verið.
—
Sjálfur hafði ég tekið næturlestina frá Marseille til Parísar á leið heim til Íslands eftir að hafa klúðrað framhaldsnámi í heimspeki á frönsku Ríveríunni og átti inni næturgistingu hjá Halldóri Stefánssyni, bróður Kára í Erðagreiningunni, sem ég þurfti ekki á að halda því Halldór stak upp á að ég hitti hann frekar á kaffihúsinu Select því þar yrði meira fjör en heima hjá honum.
Fór þangað og þar voru allir og aðalmaðurinn Sigurður Pálsson skáld með alpahúfu og frönskuna á hreinu sem hafði vafist fyrir mér.
Leið svo kvöldið inn í nóttina og styttist í að flugvélin til Íslands færi í loftið frá Charles de Gaulle.
Gallinn var sá að ég var búinn að með alla frönsku frankana mína en nóg átti ég af íslenskum krónum sem vonlaust var að skipta í útlöndum. Mig vantaði franska franka fyrir leigubíl út á flugvöll. Klukkan farin að halla sér í fimm að nóttu og hver að verða síðastur.
Nema Sigurður Pálsson sem sagði:
“Tökum Pinball upp á peninga.”
” Bien sûr,” svaraði ég enda kunni ekki mikið meira í málinu.
Svo fór að ég malaði hann í Pinballinu og Sigurður dró upp franska franka sem dugðu nákvæmlega fyrir leigubíl út á völl.
Svo kvöddumst við að frönskum hætti á gangstéttinni fyrir utan Selcect á Montparnasse, ég fór í flug og hann heima að yrkja.
Hefði ég tapað þarna í Pinballinu væri ég líklega enn á sama stað.
Veit ekki um Sigurð.