—
Ungi og fallegi ferðamálaráðherrann með langa nafnið, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, á kannski ekki svo langt að sækja pólitískan áhuga sinn því amma hennar, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, var þingmaður Kvennalistans 1991- 1995. Jóna Valgerður var svo hin síðari ár skeleggur málsvari og forystumaður samtaka aldraðra, sveitarstjóri á Reykhólum og gegndi ýmsum öðrum trúnaðarstörfum. Leiða má likur að því að nafnið Reykfjörð sé tengt því að Jóna Valgerður er fædd í Reykjarfirði á Ströndum – já Reykjarfirði með erri.
Ekki má gleyma því að Guðmundur afi ráðherrans nýja var lengi forystumaður Sjálfstæðismanna í bæjarmálum á Ísafirði , og þau hjón því ekki alltaf á sömu pólitísku línunni.
Þá má geta þess að ömmubróðir nýja ráðherrans er Guðjón A. Kristjánsson fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins, eða Addi Kitta Gau , eins og hann var kallaður daglega innan og utan Alþingis, og hann var lika lengi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins fyrir vestan áður en hann gekk í raðir Sverris Hermannssonar þingmanns, ráðherra, og bankastjóra með meiru.