Viðskiptadeildin tekur snúning:
—
Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að Frosti Ólafsson láti senn af störfum framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs og taki við nýju starfi. Svo gerist Moggi dularfullur og segir að búið sé að ráða nýjan mann í starfið en það verði ekki tilkynnt fyrr en í næstu viku.
Þeir sem lesa áfram og komast í gegnum atvinnublað Moggans sjá hins vegar stóra auglýsingu þar sem auglýst er eftir hagfræðingi Viðskiptaráðs. Vaknar þá sú spurning hvort tveir plús tveir séu ekki örugglega fjórir, jafnvel hjá Viðskiptaráði, og að búið sé að ráða Björn Brynjúlf Björnsson hagfræðing samtakanna í starf framkvæmdastjórans?
En hvenær kemur að ömmu?
Björn Brynjúlfur hagfræðingur Viðskiptaráðsins er einmitt sá sem farið hefur hæst að undanförnu og viljað að ríkið selji kirkjur til að spara. Hann hefur ekki áttað sig á því að það er sóknirnar sem reka kirkjurnar en ekki ríkið auk þess sem þessar kirkjur eru snarfriðaðar.
Í Viðskiptaráði hefur lengi verið í gangi keppni um hver geti gengið lengst í tillögum um sölu á hinum og þessum eignum. Ólíklegt er að hægt verði að ná lengra en þetta en það bíður nýs framkvæmdastjóra að leggja til að ríkið selji ömmu sína og að lífeyrissjóðirnir og fagfjárfestar kaupi kirkjugarðana.
Um eignasölu innan kirkjunnar má reyndar líka lesa í Mogganum því þar er fasteignin Laugavegur 31 auglýst til sölu. Þar er um að ræða Kirkjuhúsið þar sem sjálf biskupsstofa og helstu stofnanir kirkjunnar eru til húsa og áður var verslun Marteins Einarssonar & Co. Húsið er glæsilegt, teiknað að Einari Erlendssyni. Tilvalið fyrir Viðskiptaráð.