Hreinn Loftsson lögfræðingur og fjölmiðlaeigandi er enn að klóra sér í kollinum eftir heimsókn í bakarí Jóa Fel í dag:
—
“Þrír strákar á að giska 10-11 ára voru fyrir framan afgreiðsluborðið hjá Jóa Fel á Garðatorgi fyrr í dag þegar ég leit þar við til að ná mér í brauð fyrir morgundaginn. Þeir voru að borga það sem þeir höfðu keypt sér og ég var næstur í röðinni. Einn þeirra snéri sér þá að mér og horfði á mig athugulum augum.
Ertu úr Vestmannaeyjum? sagði hann.
Já, sagði ég undrandi.
Alveg vissi ég þetta, sagði hann.
Hvernig vissir þú hvaðan ég væri, sagði ég.
Ég veit það ekki; þú lítur bara út eins og þú sért úr Vestmannaeyjum, sagði hann.
Þar með var hann rokinn með vinum sínum að borði þar sem þeir sátu og drukku kakómjólk með bakkelsinu sínu og hafði ekki lengur áhuga á málinu. Það var greinilega upplýst að hans mati. Eftir stóð ég furðu lostinn og velti fyrir mér spurningunni: Hvernig líta Vestmannaeyingar út?