Borist hefur póstur frá Halldóri Halldórssyni oddvita sjálfstæðismanna í borgarastjórn Reykjavíkur vegna fréttar sem hér birtist í morgun undir fyrirsögninni Þarf bát í Rauðhóla:
—
Við lögðum fram þessa tillögu í umhverfis- og skipulagsráði rétt í þessu. Áður en ég skrifaði tillöguna fór ég um allt svæðið með staðkunnugum.
Tillaga vegna hárrar vatnsstöðu í Norðlingaholti
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Halldór Halldórsson og Áslaug Friðriksdóttir leggja til að brugðist verði nú þegar við alltof hárri vatnsstöðu við byggðina í Norðlingaholti. Svæði sem áður var á þurru er nú umflotið milli Norðlingaholts og Rauðhóla. Athuga þarf hvort ekki þarf að lækka vatnsstöðu Elliðavatnsins eins og áður var gert með því að opna lokur í stíflugarði og hleypa vatni á árfarveg Bugðu sem er þurr neðan stíflugarðs í Elliðavatni.
Greinargerð:
Þetta mál hefur verið í einhverri skoðun en ekkert hefur gerst. Hugmyndir hafa verið um að lítil brú á reiðvegi skapi tregðu sem hækki vatnsstöðuna en að mati staðkunnugra er það afar ólíklegt. Taka þarf á þessu máli því of há vatnsstaða á svæðinu veldur óþægindum og áhyggjum íbúa af ástandinu.
Áður fyrr var loka á stíflugarði Reykjavíkurmegin í Elliðavatni sem opnuð var til að hafa ekki of háa vatnsstöðu í Elliðavatni. Þessi loka opnaði fyrir streymi úr vatninu í ána Bugðu sem er þurr neðan stíflugarðs í dag. Að mati margra hefði það jafnframt jákvæð áhrif á hrygningargetu laxa í Elliðaánum ef opnað verður að nýju fyrir rennsli úr Elliðavatni í Bugðu.