Í framhaldi af frétt um ásókn Kjalnesinga í sjósund sendir fréttaritari okkar á Kjalarnesi fréttaskýringu:
—
Á fundi sveitarstjórnar lét Kalman oddiviti bóka að hann vilji láta bæta við skilti um hættu af háhyrningum.
Kýrunn varaoddviti gekk af fundi.
Ástæðan mun vera þessi langloka:
Stefán Jónsson fréttamaður segir frá því í bókinni “Að breyta fjalli”, þegar hann á 11. vetri var í vist hjá Vilhjálmi Guðmundssyni afabróður sínum, á Húsavík. Hann hlustaði andaktugur um stund á mergjaðar frásagnir um langafa sinn, en segir svo:
“Þegar hér var komið fékk ég ekki orða bundist, en sagði honum frá því þegar Bergsveinn í Urðarteigi skaut skökulinn undan háhyrningnum sem kom stökkvandi utan úr Reyðarskelsbót, og ætlaði að nauðga kúnum hans Stefáns faktors, sem voru að synda í land úr Grunnasundsey.
Hann hlýddi kurteislega á söguna, án þess að gefa neitt út á skotfimi Bergsveins um sinn, en sagði mér auk í staðinn, umsvifalaust, þegar langafi minn drap bjarndýrið með snjórekunni niður á Nausteyri. Síðan þagnaði hann og hugsaði sig um, og sagði loks:
“Vesalings skepnan að verða fyrir þessu!”
Og svo enn eftir andartak:
“Hvað hann pabbi hefði gert við helvítis háhyrninginn, heillin? Hann hefði leyft honum að fara upp á beljurnar, því það hefði verið gaman að sjá! Og svo hefði hann bara skotið hann sjálfan og hann hefði verið étinn heima á Dalnum! “
Þá varð það mér ljóst, að eins og ég myndi aldrei jafnast á við Guðmund langafa minn á Brettingsstöðum, í skotfimi né öðrum vaskleik, þá myndi ég enn síður hafa roð við Vilhjálmi syni hans í frásagnardjörfung. Hann var þess háttar.”